önnur mætt á svæðið

Jæja þá er loksins komin ný þvottavél í hús. Hún segist vera enn flottari en sú fyrri og taka 8 kg. af þvotti.  Hún á svo eftir að sanna sig og sýna að hún standi sig á öllum prógrömmum.  Það mætti halda að líf mitt snérist eingöngu um þvott og þvottavélar svo hefur mér orðið tíðrætt um það málefni hér á þessum vettvangi en svo er nú aldeilis ekki maður er sko með mörg járn í eldinum.  Til dæmis fór ég í bíó í gærkvöldi og það geri ég nú reyndar ekki oft, en ég var boðin af nýjasta tengdasyninum og því boði var ekki hægt að hafna. Þarna sannaðist enn og aftur hvað það er gott að eiga margar dætur þá eignast maður svo marga tengdasyni.  Myndin sem við sáum var sú nýja íslenska Brúðguminn og er hún alveg frábær fyndin og vel leikin. Við Hólmfríður og Guðjón mælum með henni hún er ein af þeim bestu.

Svo er skólinn um það bil að byrja.  Það var vesen með aðgangsorðið hjá mér en það er komið í lag og þá er bara að hrista af sér slenið og byrja að prenta út námsefnið.  Þetta verður áreiðanlega gaman en sjálfsagt á ég eftir að hugsa annað slagið hvern skollann var ég að hugsa að vera að álpast út í þetta, en þá minnir maður sig á hvernig við Tóta ætlum að halda uppá skólaslitin.  Það verður nefnilega meiriháttar.  Við ætlum að kaupa okkur dragtir og fara út að borða á Argentínu.  Við vitum að í upphafi á maður að huga að endinum og þetta ákváðum við að gera um leið og við innrituðum okkur í námið þið systur sem eruð með okkur eruð velkomnar með og því fleiri því betra.

Ég var búin að strengja þess heit að hætta að kaupa prjónablöð staflinn sem ég á nær mér upp í hné og er ég nokkuð há til hnésins en ég féll í dag og skellti mér á nýja Tinnublaðið.  Ég skoða það þá bara og læt mig dreyma um vettlingahrúguna og húfustaflann sem ég ætla einhvern tíman að prjóna.  Það er gott að geta látið sig dreyma. Nú er held ég mál til komið að hætta þessu bulli og fara að hengja upp þvott eða eitthvað annað af viti. Kærar kveðjur til ykkar allra


Þá er að bretta upp ermarnar

Komið þið öll blessuð og sæl lesendur góðir og gleðilegt nýtt ár.  Hér á bæ hefur lífið að mestu gengið sinn vanagang sem betur fer maður  er ekki svo mikið gefinn fyrir breytingar  Jól og áramót liðu í rólegheitum vinna og frí til skiptis. En  nú fer að líða að því að maður þarf að hrista af sér slenið og líta upp úr skáldsögunum því nú byrjar skólinn í vikunni.  Það er gott að hugsa til þess að nú sígur á seinni hlutann og það verður gaman að hitta skólasysturnar í mars.  Mér finnst lítið að vera bara í 2 fögum var ekki búið að nefna 3?   Eins er spennandi að vita hvar maður lendir í verknáminu og hvort maður hefur eitthvað um það að segja.

Eg hef lofað mér því að standa mig betur í að hitta vinina mína fara oftar á kaffihús og hætta að láta letina yfirbuga mig á kvöldin síðan á eftir að koma í ljós hvernig efndirnar verða.  Vonandi stend ég mig betur en nýja þvottavélin sem ég sagði ykkur frá um miðjan nóvember.  Hún hefur sko ekki staðið sig hún hefur ekki getað farið eftir einföldustu leiðbeiningum og beiðnum vindur bara þegar hún nennir því og allt eftir því.  Nú eru dagar hennar líka taldir hér á þessu heimili og nærveru hennar ekki óskað lengur.  Hún verður sótt í fyrramálið og önnur kemur í hennar stað svona fer nefnilega ef maður stendur sig ekki manni verður bara skipt út .  Því segi ég það ætli ég panti mér ekki bara fast borð á Bláu könnunni og taki enga sjensa.

Hafið það gott öll og heyrumst fljótlega  Gagga 


Þvílíkt basl

Komið þið sæl og blessuð.  Ég held að ég verði ellidauð yfir þessu Exelverkefni.  Ég er búin að sitja við og basla geri tómar vitleysur byrja uppá nýtt og basla áfram.  Þetta byrjaði ekki svo illa mér fannst ég alls ekki svo slæm en eftir símaskrána hefur leiðin legið hægt en örugglega niður á við.  Æfingar 2 og 3 eru farnar þangað sem þær eiga að fara og nú er ég bara farin í FRÍ.

Þvottavélin mín til 23 ára sagði endanlega upp í gær.  Við hjónin fórum svo í dag og festum kaup á Siemens grip því þvottavélarlaus verður maður ekki í marga daga með þessar dætur og allan þennan bolaþvott.  Valið stóð á milli Siemens og AEG sagði húsbóndinn en mér fannst nú ekki erfitt að gera upp á milli þeirra því takkaborðið var eins og í herþotu á AEG vélinni og ég hefði aldrei haft af að klóra mig út úr einföldustu verkefnum nei nú er ég að segja ósatt ég er ekki svona ferleg. En sú nýja er komin í hús og farin að þvo boli í gríð og erg og sú gamla er flutt á elliheimili gamalla raftækja Hún var svo sannarlega búin að standa sig vel í gegnum árin blessunin en var farin að taka of mikið af viðgerðartíma húsbóndans svo þetta var best svona.

það eru fleiri fluttir en gamla þvottavélin Því Kristín er farin að búa með honum Fjölni sínum og orðin húsmóðir í Snægilinu. Nú bíðum við spennt eftir að verða boðuð í mat til þeirra eða að minnsta kosti í kaffi.  Þetta er mjög góð íbúð svo það væsir ekki um þau.

Jæja nú er ekki til setunnar boðið sú nýja hefur lokið frumraun sinni hér í Ásveginum og nú þarf ég að taka verkið út og setja henni fyrir nýtt bolaverk.

Bestu kveðjur til allra Joyful


Komið þið sæl

Það er orðið svo langt síðan ég hef sett eitthvað á þessa bloggsíðu að mér finnst tími til kominn að punkta eitthvað niður .  Þetta er búin að vera ansi lífleg helgi eins og svo oft áður.  Það var nú vinnan, ég var á morgunvöktum um helgina og það var hressandi sprettur þar.   Á föstudagsmorgun byrjaði bocciamótið sem ég var búin að nefna hér á þessum vettvangi.  það þarf ekki að hafa mörg orð um það þetta var mjög skemmtilegt.  Ég var svolítið eins og álfur út úr hól því ég hafði aldrei svo mikið sem séð þetta spilað en með góðri aðstoð var hægt að segja mér til svo ég náði að skila mínu. Það voru um 180 keppendur sem tóku þátt í mótinu og mikill fjöldi aðstoðarfólks og var mjög kátt í höllinni.  Á laugardagskvöldið var glæsilegt lokahóf með góðum mat og dúndrandi balli á eftir. Þar tvistaði maður og tjúttaði og hristi alla skanka.sem sagt mjög gaman. Þetta er búinn að vera mikill undirbúningur og vinna því er ánægjulegt þegar allt virðist hafa gengið upp.

Þá fer að styttast tíminn sem maður hefur til að innbyrða lærdóminn á þessari önn. Tíminn er svo fljótur að líða og mér finnst ég eiga svo mikið eftir.nú ætlar einn tengdasonurinn að fara að leiða mig í allan sannleika um Exelforritið svo ég sendi öllum bestu kveðjur


Kvöldspjall

Þá er dagur að kvöldi kominn og mál að fara að hvílast en ætla að pikka nokkrar setningar áður. Það kom staðfesting í dag á því að við Þorgeir fáum gistingu í Mývatnssveitinni þann 8. des og ég er strax farin að hlakka til.  Reyndar byrjaði ég á því strax og ég hringdi austur til að fá breytinguna á gjafabréfinu.  Það verður frábært að keyra austur uppúr hádeginu á laugardeginum , koma við í Náttúrubaðinu og dóla sér í rólegheitum um sveitina því áreiðanlega verður fínt veður skafheiður himinn og alhvít jörð það getur bara ekki annað verðið á þessum árstíma.  Svo eru víst jólasveinar á ferðinni þarna og ekki er nú leiðinlegt að hitta þá. Síðan bíður jólahlaðborðið og maður fær nú bara vatn í munninn við tilhugsunina um það.

Hér á þessum bæ eru allir hálfþreyttir.  Karlmennirnir hafa staðið í ströngu við að setja vetrardekk undir bíla bæjarbúa meirihluta sólarhringsins þessa viku,en nú fer því verki að ljúka sem betur fer.Það er alltaf svolítill spenningur á hverju hausti yfir þessari dekkjavertíð .  Hvenær skellur hún á hvað stendur hún lengi og svo framvegis.  En nú er þessu sem sagt að ljúka í þetta skiptið og það er nú gott.  Við stelpurnar erum hálf andlausar líka svo sennilega er best að fara að lúra.  Ég er að lesa bók eftir þráinn Bertelsson Valkyrjurnar heitir hún  ætli ég sálgreini ekki persónurnar og greini gerðir þeirra, jákvæðar og neikvæðar styrkingar og hvað þetta allt saman heitir og er.  Bókin er fín en það sem ég les er allt farið að blandast saman þetta verður trúlega fróðleg útkoma á þessu öllu Bestu kveðjur til allra


Léttir

Mikið er ég fegin búin að senda frá mér prófið í Word.  Ég er búin að sitja við gjörsamlega í allan dag að fara yfir verkefnin frá síðustu önn gera síðasta próf og var bara orðin ansi góð í því  hefði bara viljað fá það aftur en nú er þetta frá í bili og ekkert hægt að laga það.  Þetta hefur verið mikil lærdómshelgi og óskandi að eitthvað sitji eftir þegar kemur að leikslokum.

Annars hefur allt gengið sinn vanagang sem betur fer. Það var mikið að gera í Dekkjahöllinni í gær veðurspáin var þannig að betra er að vera vel skóaður.  Það getur vel verið að það sé ekki umhverfisvænt að aka um á nagladekkjum, en það er ekki heldur umhverfisvænt að keyra einhvern niður eða liggja sjálfur úti í skurði

Um næstu helgi verður líflegt hér á Akureyri.  þá verður haldið Íslandsmót fatlaðra í boccia  dagana 2.-3. nóvember. Félagarnir í Kiwanisklúbbnum Kaldbak standa við bakið  á félögunum í Eikinni sen er umsjónaraðili mótsins og sem eiginkona stend ég við bakið á mínum manni og ætla að taka þátt í þessu líka.  Það hefur staðið yfir mikil smölun á fólki í dómaraembætti og þeir sem slógu til hafa verið í stífri þjálfun því það er sko betra að kunna reglurnar og dæma rétt.

Ég er hálf eftir mig eftir glímuna við tölvuna og ætla snemma í rúmið.  Ég sendi bestu kveðjur til allra


Heppin

Já nú var ég aldeilis heppin  Þannig er að nágrannar mínir eru að heiman yfir helgina. Verðum við mæðgur Jóhanna og ég ekki varar við grunsamlegan náunga sem er eitthvað að bauka við útidyrahurðina. Hann baukar og baukar og okkur þótti hann mjög grunsamlegur.  Maður er líka alltaf að heyra sögur af innbrotum þar sem enginn er heima og allt er gjörsamlega hreinsað út úr húsum.  Við Jóhanna erum ábyrgir nágrannar og ætluðum bara að senda lögguna á manninn en þar sem við erum aðgætnar líka ákváðum við að hringja eitt símtal til húseiganda.  Kom þá í ljós að þetta var bróðir húsmóðurinnar og var þarna í fullu leyfi gekk bara svona illa að opna.  Við tókum þá að okkur að koma manninum í hús en það fóru tvennar sögur af því hvort væri heppilegra að toga í hurðina eða sparka í hana þess vegna var þetta svona erfitt hann reyndi bara að snúa lyklinum. 

Hugsið ykkur bara ef ég hefði sent lögguna á manninn blásaklausan.  Hann hefði orðið miður sín og ég hefði dauðskammast mín

Þetta átti nú bara að vera örstutt hjá mér í dag, það eru nefnilega svo mörg verkefni fyrirliggjandi

Bestu kveðjur til allra


Það var mikið

Það var mikið að maður hafði sig í að blogga smá.  Annríkið er alveg að fara með mann svo ég tali nú ekki um prófskrekkinn.  Ég var í miðjum húsverkaklíðunum þegar T óta hringdi í morgun og sagði að allt væri  löðrandi í prófum og verkefnum á skólavefnum.  Ég hef svo ekki þorað að fara þangað inn í dag vegna hræðslu við að opna eitthvert verkefnið sem ég er ekki tilbúin að takast á við en nú verður ekki undan vikist lengur og ég ætla að skella mér í sálfræðina rétt strax bara aðeins að slaka á fyrst.

Ég er farin að hlakka til að fara til Reykjavíkur í mars og hitta samnemendur og kennara þetta verður áreiðanlega gaman og ef til vill verður tími fyrir eitthvað annað t.d. að líta í Kringluna eða Smáralind.  það er svo skrítið að þegar maður lítur inn á þessa staði hittir maður alltaf einhverja sveitunga en Reykvíkingar virðast sammála um að þangað fari þeir aldrei  Það er því sennilega landsbyggðin sem heldur þessum sjoppum gangandi.

Jæja þá er ég að hugsa um að fara að endurheimta eitthvað af þeim upplýsingum sem ég hef verið að innbyrða að undanförnu og skella mér í sálfræðiprófið.  Það stendur einhversstaðar í þeim fræðum að trú á eigið ágæti hafi mikið að segja svo nú kveð ég ykkur full sjálfstrausts.


Haustverk

Þá eru haustverkin frá.  Ég er búin að koma þessum tveimur lambaskrokkum í frystikistuna, snyrtilega raðað og jafnt skipt í poka.  það er af sem áður var þegar tekin voru 25 slátur, búin til kæfa og soðin rabbarbarasulta í stórum stíl. Þá var líka borðað slátur þrisvar í viku, einu sinni soðið, einu sinni steikt og svo slátur með grjónagrautnum á laugardögum.  Mér tókst líka að gera stóru börnin algerlega afhuga sláturneyslu fyrir lífstíð. Nú er öldin önnur í matarmálunum slátrið strikað út og pizzan komin inn.  Það er örugglega ágætt miklu fljótlegra og miklu hollara .  Maður hafði bara ekki hugmynd um hvað þetta slátur sem maður hélt svona ákveðið að blessuðum börnunum var óhollt. Þetta eilífa sultuát var áreiðanlega ekki heldur til fyrirmyndar sykur og rabbi til helminga  .  Nú er hrásalat með öllum mat og öllum líður betur nema einstaka karli sem heldur sig enn á sultustiginu og segir í hverjum matartíma "hvar er sultan"af því maður man aldrei eftir henni í dag.

Í framhaldi af þessu matartali og vegna eindreginna óska ætla ég að gefa ykkur uppskrift af kjúklingarétti , sem hefur verið vinsæll á mínu heimili um árabil.

Einn soðinn kjúlli tekinn í sundur og settur í eldfast mót.  þá hrærið þið saman 3/4 af lítilli majonesdollu +einni dós af Campellssúpu (þið ráðið bragðinu)+1 tesk.karry +  1/2 tesk.hvítlaukssalti og hellið yfir  .Þá er settur ostur og bakað í ofni í 20 mín.  Svo eru höfð með þessu soðin hrísgrjón og snittubrauð  Vona ég að þetta bragðist vel

Þá er nú kominn tími á að líta á súpukjötið sem á að gæða sér á hér í kvöld  það er sem sé frumsýning á lambakjöti haustsins.

Bið ég ykkur öll vel að lifa


Kvöldpistill

Þá er þessi dagur farinn að styttast í annan endann og klukkan að verða hálf tíu.  Þetta var alveg ágætis dagur, svolítið strembinn í vinnunni en maður er nú öllu vanur .  Ég var allavega ekki þreyttari en svo að ég skutlaðist í leikfimi til að hreyfa mig aðeins.  Þetta var ný tegund af leikfimi sem ég hef aldrei gert áður og heitir Body Vive.  Kennarinn sem heitir Aðalbjörg er aldeilis frábær alltaf svo kát og skemmtileg.  Hún tók sig mjög vel út á kennarapallinum en einhvern veginn  fannst mér ég vera eins og fíll í postulínsbúð.  Þetta eru ansi skemmtileg dansspor og svo sveiflar maður sér með bolta og þarf að sjálfsögðu að gæta þess að keyra ekki næstu konu niður. Síðan tóku við teygjuæfingar og svo  enduðum við að lokum á dýnunni þar sem teknar voru nokkrar góðar magaæfingar.   Setning eða lína úr leikriti , sem ég sá fyrir mörgum árum flýgur stundum í gegnun hausinn á mér þegar ég er búin að þenja mig alveg í drep þarna á Bjargi  hljóðar einhvern veginn svona " og svo loks um lágnættið lemstruð heim var studd"  Það er samt ekki þannig að ég hafi ekki verið sjálfbjarga heim en oft svolítið þreytt en það er þægileg þreyta í bland við smá stolt yfir að hafa drifið mig þegar sófinn og kaffibollinn freista.

Nú eru farnar að birtast auglýsingar um jólahlaðborð og ekki seinna vænna en að hringja strax í fyrramáli og tryggja sér borð.  Við hjónin eigum gjafabréf á villibráðarhlaðborð í Seli í Mývatnssveit en sökum anna sjáun við okkur ekki fært að nýta okkur það  Því fannst okkur þjóðráð að breyta þessu í jólaferð og slökunarferð að afloknum prófum. því þarf að reyna að ná samningun við þá þarna fyrir austan um að hliðra til með tímasetninguna.

Nú gæti ég trúað að kominn sé tími til að halla sér og sendi mínar bestu kveðjur til allra vina og vandamanna 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband