Færsluflokkur: Bloggar
16.10.2007 | 10:00
Nú er það hvítt maður
Þá er það byrjað veturinn kominn með hálkuvesen og gluggaskaf. Vetrardekkin mín virðast vera týnd svo ég má gera svo að fara fótgangandi þangað sem ég ætla. Hólmfríður er sú eina hér á bæ, fyrir utan húsbóndann auðvitað, sem er almennilega útbúin til vetraraksturs svo hún er sú vinsælasta á heimilinu í dag. Nú er hún blessunun að keyra Sunnu bestu í VMA og Stínu í vinnuna því næst ætlar hún að draga björg í bú og kaupa mjólk og aðrar lífsnauðsynjar. Við erum svo sannarlega heppin að hafa Hólmfríði.
Ég sá póst frá Svanhildi þar sem hún sagði að við þyrftum ekki að taka próf í skólanum. Mér létti alveg ógurlega því ég er hrædd um að ég hefði alveg verið glötuð fyrir framan aðra tölvu en heimilistölvuna. Hún er á íslensku og þó það rugli mig þá held ég að það hefði ruglað mig enn frekar að skipta um. Því segi ég þakka þér kærlega fyrir Svanhildur það er þungu fargi af mér létt. Hann er skrítinn þessi tölvuskrekkur ég segi við sjálfa mig iss þetta er bara eins og hver önnur hrærivél ekkert mál að eiga við hana og það er ekki það þetta hefst allt , tekur bara ógnarlangan tíma. Og þó ég segi sjálf frá þá hefur mér farið mikið fram þó margt sé eftir.
Þarna kemur bjargvætturinn Hólmfríður heim úr hálkunni og þá er best að snúa henni við og skutlast í Nettó
Hvítar kveðjur að norðan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2007 | 09:48
Þá er komin ný vika
Sú síðasta leið með ógnarhraða. Í öllu þessu annríki er þetta stöðugt kapphlaup við klukkuna en er það ekki bara gott ? Ekki væri maður ánægðari ef maður þyrfti að drepa tímann það yrði svo niðurdrepandi
Ég er búin að standa mig ágætlega í náminu og sit við lestur og verkefnagerð. Reyndar verð ég að játa að ég eyddi lunganum úr laugardeginum í verslunum bæjarins og keypti mér helling af fötum. Þetta var búið að standa til lengi en ég var alltaf að bíða eftir að fara til Reykjavíkur í allt úrvalið þar og svo var ég að bíða eftir að það yrði aðeins minna af mér. En á laugardaginn tók ég sem sagt af skarið með þetta og dreif mig í þetta. Það er engin Reykjavíkur ferð á döfinni og ég alltaf jafn pattaraleg svo ég renndi bara í þetta. Það er þannig með mig að ég á erfitt með að byrja en ef að .ein eða tvær flíkur komast í poka þá kemst ég sko í stuð og eftirleikurinn getur orðið ansi spennandi og þannig fór þetta á laugardaginn , það var bara eins og ég hefði farið í verslunarferð til útlanda. Nú er staðan í fatamálum þannig að ég þarf að vakna hálftíma fyrr á morgnanna því nú hef ég úr svo mörgu að velja og sá á kvölina sem á völina. Það er sem sé alltaf eitthvað Nú er klukkan að verða tíu og ég þarf að skutla Stínu á milli húsa. Það er svo hráslagalegt veðrið snjór niður í miðjar hlíðar og skítkalt að ég get ekki annað en látið þetta eftir henni
Kærar kveðjur til allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2007 | 14:37
Ný sjón
Þá eru nýju gleraugun komin á andlitið og nú skulum við vona að ég verði aðeins víðsýnni en ég hef verið hingað til. Þetta þarf allt að venjast, að horfa á réttan stað í gegnum glerið því það er svo margbrotið, og svo er þetta auðvitað allt annað útlit. Mér hefur nú ekki gengið vel að sætta mig við að þurfa að ganga með gleraugu ekki vegna þess að það tilheyri hækkandi aldri þannig séð heldur það að það er erfitt að missa eitthvað sem maður hefur átt og haft og þótti sjálfsagt en svo getur maður bara því sem næst allt í einu ekki lesið án hjálpartækja. En svona er lífið og þá er bara að taka því.
Ég var með einhverjar yfirlýsingar hér á þessum vettvangi í gær um fyrirhugaða vinnu við vefsíðu. Það er skemmst frá því að segja að það fór allt í vaskinn og næsta mál í stöðunni er að þurka allt út og byrja uppá nýtt. Ég er hreint ekki að gefast upp það er ekki það en þetta tekur svo sannarlega allt sinn tíma og taugarnar strekkjast ansi mikið. Það kemur sér vel að þær þola þó nokkra teygju greyin. Það kemur sér líka vel að eiga góða að og Tóta mín blessunin ætlar að hjálpa þeirri gömlu í gegnum þetta um helgina , en þá erum við báðar í fríi frá launuðu vinnunni.
Nú er stund launuðu vinnunnar að renna upp hjá mér og ég þarf að fara að drífa mig, með nýju gleraugun, ef ég ætla ekki að koma of seint og þar sem ég vil það alls ekki bið ég að heilsa ykkur öllum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 09:28
Morgunhugleiðing
Þá er runninn upp miðvikudagsmorgun og gott að byrja hann snemma. Kaffihúsakvöldið var fínt hjá okkur Önnu og eins og alltaf lofum við því að ekki líði svona langt á milli þess að við hittumst næst en svo á eftir að koma í ljós með efndirnar. Hún er svo flott hún Anna dreif sig á fullorðinsaldri í háskóla og lærði að vera leikskólakennari og um daginn var hún með málstofu á þingi sem haldið var í Háskólanum á Akureyri. Hún er mjög dugleg kona.
Ég sá að Krummasnilli var eitthvað að klikka á tökkunum. Ég varð pínu fegin , ekki það að ég hlakki yfir óförum annarra alls ekki , heldur að ég sé ekki sú eina sem skripla á þessum tökkum Ég hef ekki tölu á þessum líka afbragðsfínu pistlum sem hafa horfið út í buskann fyrir handvömm. Því varð mér ekki um sel þegar ég sá próftöfluna í gær og ég þarf að fara í VMA og taka prófið þar á tölvu sem ég þekki ekki neitt ég veit að það verður ekki glæsilegur árangur, en hugsum um það seinna. Í dag ætla ég að halda áfram að spreyta mig á að setja upp vefsíðu Tóta er búin með sína og gekk held ég bara vel og það gengur ekki að vera með neitt væl bara drífa sig.
Svo er líka fyrirliggjandi að fara í bæinn að kaupa afmælisgjöf handa nöfnu minni í Kaupmannahöfn. Hún verður þriggja ára þann nítjánda okt. blessunin. Það verður nú ekki flókið því ég kem mér bara niður á eitthvað ákveðið í byrjun árs og svo fá öll barnabörnin það sama. Lengi voru það peysurnar frá 66° Norður en nú eru farnir að fást svo góðir stakkar hjá þeim að nú er stefnan tekin á þá og allir þokkalega ánægðir að minnsta kosti foreldrarnir.
Nú er kominn tími á að spreyta sig við vefsíðuna svo eitthvað bætist við hana áður en ég fer á kvöldvaktina. Ég sendi kærar kveðjur til allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.10.2007 | 20:48
völundarhús
Það er ekki auðvelt að fóta sig í þessum netheimum. Það er alveg áreiðanlega óhætt að hafa þá í fleirtölu. Í heilbrigðisfræðinni var okkur sett fyrir að fara inná vef Lýðheilsustöðvar og kynna okkur hvað þeir væru að brasa við þar og mér sýnist það vera dagsverk að skoða það að einhverju gagni. Þarna leiðir eitt að öðru í bókstaflegri merkingu því ef maður er búinn að lesa eitt þá þarf að lesa annað til að verða einhverju nær. Þetta eru algerir dugnaðarforkar þarna á Lýðheilsustöðinni og svo margt sem fengist er við þarna að mér virðist þeim ekkert mannlegt óviðkomandi. Það er fínt að hafa aðgang að svona miklum upplýsingun á einum stað en svolítið snúið að velja úr hvað maður vill helst skoða best.
Hér á Akureyri er haustveðrið með eindæmum fallegt um þessar mundir. Himininn er svo heiður og tær og lognið næstum algert. Innbærinn með brekkunum og öllum sínum haustlitum er ólýsanlega fallegur. Er ég ekki búin að kveikja í öllum brottfluttum Akureyringum að skella sér norður og berja dýrðina augum? Ég á eftir að segja það að Kaldbakurinn er alhvítur og ljómar og skín í sólskininu. Jæja þetta er nú sennilega orðið ágætt hjá mér þið komið bara og sjáið þetta með eigin augum.
Nú er frídagur í vinnunni hjá mér á morgun og hann verður eins og vant er notaður til að taka til hendinni á heimilinu, en annað kvöld er ég staðráðin í að fá vinkonu mína með mér á kaffihús. Það geri ég alltof sjaldan eins og það er notalegt að sitja og spjalla yfir góðum kaffibolla og jafnvel tertusneið. Því ætla ég að hætta Þessu pikki hér og taka upp símtólið og panta kaffikvöld hhá vinkonunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2007 | 19:54
laugardagskvöld
Er þá ekki komið enn eitt laugardagskvöldið ég segi enn og aftur hvað tíminn æðir áfram. Ég var á morgunvakt í morgun og það var bara fínt allt gekk sinn vanagang. Þegar heim kom beið mín að klára verkefni í sálfræði og það er frá og þá er næst að skila verkefni í heilbrigðisfræðinni. Það er svo frábært að það er alltaf eitthvað sem bíður maður þarf ekki að óttast að verða verkefnalaus í bráð.Það er fámennt í húsinu dæturnar og tengdasonurinn eru öll á bak og burt og eftir sitjum við hjónin ein ásamt mömmu . Við hjónin sitjum hvort með sitt heimanám og sú elsta einbeitir sér að sjónvarpinu. Þeir spaugstofumenn fara að fara í loftið en ég er svo móðguð við þá að hafa ekki staðið með Randver þegar hann fékk reisupassann að ég hef ekki haft geð í mér að horfa á þá í vetur. Sniðug ég eins og þeim sé ekki sama. En tíminn er þá bara notaður í annað þarfara.
Eitt er mjög gott við þennan bloggmiðil maður heyrir frá fólki sem maður hefur ekki haft manndóm í sér til að hafa samband við lengi, gaman að heyra í þér Steini og gaman að fá kveðjuna frá Laugarvatni. Vonandi fæ ég að heyra meira frá ykkur.
Það er að koma vetur hér fyrir norðan. Í morgun þegar ég fór í vinnuna rétt fyrir átta var þriggja stiga hiti en þegar ég kom heim klukkan fjögur var hitastigið komið niður í eitt. Það fer að líða að negldum vetrarhjólbörðum og föðurlandi ef manni á að farnast vel. Það er ágætt að fá svolítinn snjó þá er gott að kúra inni og kveikja á kertum og grípa i prjóna ja maður segir si svona alltaf að vera jákvæður það er hollara þó það veki enga sérstaka hamingju þegar þarf að fara að skafa af bílrúðunum eldsnemma svo maður komist í vinnuna.
Jæja gott fólk þá er næsta verk á dagskrá að líta á vefslóð Lýðheilsustöðvar og kanna hvort ég finn ekki eitthvað bitastætt fyrir verkefni heilbrigðisfræðinnar
Kærar kveðjur til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.10.2007 | 11:36
Þá er það búið
Halló halló búin með prófið og gekk þokkalega. Ég klikkaði svo sem á ýmsum grundvallar spurningum eins og um blóðflokkana en það var bara eins og við mátti búast. Ég hafði reynt mig á netinu við að gefa sjúklingum blóð sem höfðu lent í umferðarslysum og þurfti að sjálfsögðu að finna út hvaða blóðflokk ég mætti gefa þeim. Það fór nú ekki betur en svo að ég drap þá alla og fékk þá umsögn að "þú færð aldrei vinnu hér". Það hefði átt að segja mér eitthvað t.d. að gott væri fyrir mig að grufla betur í þessu, en það komst ekki í verk og saup ég seyðið af því í gærkvöldi og svo að sjálfsögðu sjúklingarnir sem ég gekk endanlega frá. En það er aldrei of seint að bæta sig og þá er bara að fara að vinna í því. Næst á dagskrá er verkefni í sálfræði sem ég er búin að gera uppkast að en vegna þess hve ég er lítill tölvusnilli þá finnst mér þægilegra að nota blað og blýant við undirbúningsvinnuna og hún er klár hjá mér
Um helgina er nóg framundan. Ég er að vinna og svo erum við búin að bjóða gestum í mat á sunnudagskvöldið. Hér á landi er stödd dóttir vinafólks okkar, en hún er að sjálfsögðu líka vinkona okkar. Hún býr í Noregi og er hér að sýna kærastanum land og ættingja.
Nú má ég bara ekki vera að þessu blaðri lengur líkamsræktin kallar en hana er nauðsynlegt að stunda af samviskusemi ef ég á að geta tekist á við þessi flóknu verkefni daglegs lífs.
Bestu kveður til allra,
.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2007 | 21:04
lestur og meiri lestur
Þá er fyrst lollpróf þessarar annar komið inn og skelfingin grípur um sig . Ég er búin að lesa í allan dag og veit ekki lengur neitt í minn haus. Þetta var áreiðanlega eitthvað um hjartað eða hvað . Ég ahvað að fara bara í kæruleysis gírinn og bregða á leik í eldhúsinu
Jóhanna kom með uppskrift heim úr skólanum um daginn sem ég er að hugsa um að leyfa ykkur að njóta með mér. nú hef ég ekki grun um hvort ég brýt einhver höfundarlög en á blaðinu úr skólanum stendur að uppskriftin sé tekin af netinu og höfundurinn heiti AnnaBella. Ef AnnaBella hefur eitthvað upp á mig að klaga hefur hún bara samband við mig og ég læt hana hafa eina af mínum uppskriftum í staðinn
Pepperoni Ýsa
800 gr. ýsa
100 gr. sveppir
100 gr.laukur
100 gr. pepperoni
1/4 l. rjómi
3 tesk. tómatpuré
Ostur í sneiðum
Hveiti
Aromat. salt, pipar,hvítlauksduft, olía til steikingar
Veltið fiskinum upp ú hveiti og kryddi og steikið á pönnu
og setjið í eldfast mót
Steikið lauk sveppi og pepperoni á pönnu og bætið tómatpuré
og rjóma út í. Hellið yfir fiskinn setjið ost yfir og bakið í ofni i 15 mín eða þangað
til að osturinn er bráðinn
Hrísgrjón og brauð er borðað með
Þetta líkaði okkur hér í Ásveginum ágætlega og það er alveg óhætt fyrir ykkur að prufa líka.
Ég er ekki frá því að ég hafi slakað aðeins á við þetta matarstúss en hvort það sé nóg til þess að óhætt sé að líta á lollprófið er ég ekki viss um en það kemur í ljós.
Ég sendi öllum matarkveðjur heyrumst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2007 | 13:29
Klipping
Þá er búið að fela gráu hárin ein ferðina enn. Þetta er orðið á fimm vikna fresti sem þarf að standa í þessu veseni ef maður ætlar á annað borð að halda áfram að villa á sér heimildir. Ég er búin að bóka mig fram að jólum í tvígang á Medullu og er því nokkuð örugg með að vera áfram í þessu svindli út þetta ár. Svo kemur í ljós hvort hégómleikinn minnkar eitthvað á næsta ári ég á svo sem ekkert von á því. Þá þarf líka að muna að fara í litun og plokkun það er nú samt svo að það lendir oft á hakanum hjá mér ef til vill vegna þess að sjónin er farin að gefa sig og nánustu ættingjar nenna ekki að ýta við mér.
Ég næstum hrökk við á hárgreiðslustofunni áðan þegar ég var að bóka jólatímann hjá þeim og áttaði mig á hvað tíminn líður hratt. Það verða komin jól áður en maður veit af og það þýðir það líka að þá verður þessi önn búin stelpur hvernig líst ykkur á.
Ég held ég ætti að fara að spreyta mig við vefsíðugerð og það bara núna strax.
kærar kveðjur til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2007 | 10:54
Húsavíkurferð
v
Við hjónin skruppun til Húsavíkur í gær. Það var sameiginlegur stjórnaskiptafundur Óðinssvæðis og mökunum var boðið með í kvöldverðinn. Meðan Kiwanisfólkið sat fund var farið með makana í skoðunarferð um Húsavík það eru heilu hverfin í byggingu og virðist vera heilmikil uppsveifla í gangi ,enda von á álveri á næstunni.Það var farið með okkur að skoða reðursafnið sem mér fannst nú ekki tilkomumikið . Ég var öllu hrifnari af hvalasafninu sem er alveg frábært. Safnstjórinn fylgdi okkur um safnið og fræddi okkur bæði um sýningargripi og ekki síður um uppbyggingu safnsins sjálfs. Ég mæli með því stelpur ef þið eigið leið til Húsavíkur þá skulið þið líta þarna við. Síðan fengum við þennan fína kvöldverð sjávarréttasúpu, lambalæri og enduðum á kaffi og súkkulaðiköku.Það var svo fallegt að keyra um Þingeyjarsýsluna sem skartaði þessum fínu haustlitum og alltaf er jafn gaman að horfa yfir Akureyri þegar maður kemur niður Vaðlaheiðina hvort sem er í björtu eða í myrkri og horfa á ljósin speglast í Pollinum. Við vorum svo komin heim um kl. hálf tólf svo maður fór ó rúmið á skikkanlegum tíma
Nú tekur við ný vinnuvika og maður vindur sér í það sem gera þarf og brettir bara upp ermarnar
Gangi okkur öllum vel
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)